I. kafli
Heiti félags, heimili og hlutverk
1. gr.
Félagið heitir Félag Læknanema (e. Icelandic Medical Student’s Association – IMSA), skammstafað FL. Lögheimili þess er Vatnsmýrarvegi 16, 101 Rkv. og varnarþing er í Reykjavík. Samstarfsfélög og -nefndir þess eru: Alþjóðanefnd læknanema (e. Icelandic Medical Students International Committee – IMSIC), Ástráður – forvarnarstarf læknanema, Lýðheilsufélag læknanema, ritnefnd Læknanemans, kennslu- og fræðslumálanefnd, Bjargráður og fulltrúaráð.
2. gr.
Tilgangur félagsins er meðal annars að:
1. Vera fulltrúi læknanema við Háskóla Íslands innan Háskólans og utan.
2. Gæta hagsmuna læknanema við Háskóla Íslands.
3. Efla fræðslu læknanema og almennings.
4. Sinna lýðheilsustarfi.
5. Hafa forgöngu í félagslífi læknanema við Háskóla Íslands.
6. Kosta kapp um að hafa samvinnu við samtök lækna og læknanema innan lands sem utan.
7. Gefa út blaðið Læknanemann, málsgagn félagsmanna.
8. Halda úti heimasíðu.
9. Sjá um kjaramál félagsmanna.
10. Styðja við starf samstarfsfélaga.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná meðal annars með því að:
1. Efna til funda um læknisfræðileg efni.
2. Styrkja útgáfu læknarita.
3. Efla tengsl milli læknanema hér á landi og erlendis.
4. Efla persónuleg kynni læknanema, meðal annars með því að stofna til mannfagnaðar.
II. kafli
Félagsmenn
4. gr.
Allir nemendur sem stunda nám í læknisfræði eða rannsóknartengt framhaldsnám (M.Sc. eða Ph.D) við Háskóla Íslands og greiða árgjald til félagsins eiga rétt á að vera félagar.
5. gr.
Ef félagsmaður hefur brotið lög eða reglur félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins getur stjórn FL áminnt hann, og ef brot þykir gróft eða félagsmaður sinnir ekki áminningu getur stjórn vikið manni úr félaginu.
Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að tjá sig um hina fyrirhuguðu ákvörðun.
Meirihluta stjórnar þarf til að geta vikið félagsmanni úr félaginu.
Óski brottrekinn félagsmaður eftir inngöngu í félagið að nýju þarf aðalfundur að samþykkja inngöngu hans.
6. gr.
Stjórn ákveður árgjald félagsmanna.
III. kafli
Félagsfundir
7. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda í mars eða apríl ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingu á heimasíðu félagsins eða á annan tryggilegan hátt, með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta, og er hann þá lögmætur.
Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum.
Ef aðstæður í samfélaginu eru þess eðlis að ekki er unnt að halda viðburði félagsins á tilsettum tíma samkvæmt lögum Félags Læknanema getur stjórn félagsins tekið ákvörðun um nýja tímasetningu.
8. gr.
Þessi mál skulu vera á dagskrá á aðalfundi:
1. Lagabreytingartillögur lagðar fyrir aðalfund
2. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
3. Stjórn leggur fram reikninga síðasta starfsárs til samþykktar.
4. Kosning í öldungaráð FL
5. Kosning í Vice President of External Affairs (VPE)
6. Kynning á niðurstöðum kosninga í embætti félagsins.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna.
8. Önnur mál.
9. Vísa félagsins sungin af fráfarandi og nýkjörinni stjórn.
9. gr.
Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að kröfu tíunda hluta félagsmanna eða skoðunarmanns.
Til fundar skal boðað á sama hátt og segir til um aðalfund, þó með minnst sólarhrings fyrirvara.
IV.kafli
Stjórn félagsins
10. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð sex félagsmönnum til eins árs í senn. Starfsár stjórnar félagsins er milli aðalfunda félagsins.
Stjórn skal skipuð nemendum af öllum námsárum.
● Formaður skal koma af fimmta námsári.
● Varaformaður sem jafnframt er lánasjóðsfulltrúi læknanema skal koma af fjórða námsári og vera tengiliður læknanema (sem heild við LÍN).
● Gjaldkeri skal koma af þriðja námsári.
● Fulltrúi í fulltrúaráði heilbrigðisvísindasviðs skal koma af öðru námsári.
● Ritari skal koma af fyrsta námsári.
11. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi og almenn landslög setja.
Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Gjaldkeri skal annast um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti og halda utan um félagatal. Ritari skal halda til haga fundargerðum og félagatali.
Félagið á tvo fulltrúa í stjórn Félags Almennra Lækna (skammstafað FAL). Þar skulu sitja tveir fulltrúar úr FL sem stjórn skipar
Stjórnarmeðlimir eiga sæti í deildarfundum, skorafundum og deildarráðsfundum sbr gr. 21
Allar fjárskuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins skulu bornar sérstaklega undir gjaldkera félagsins sem hefur heimild til fjárútgjalda að 100.000 kr án þess að bera það undir stjórn félagsins.
12. gr.
Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Boða skal til stjórnarfundar með að minnst eins sólarhrings fyrirvara.
Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns í fjarveru formanns) úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.
V. kafli
Samstillingarfundur
13. gr.
Samstillingarfundur Félags læknanema skal haldinn einu sinni á önn. Fundinn skipa a.m.k. tveir fulltrúar úr hverju samstarfsfélagi FL. Á fundinum ber hverju félagi að gera grein fyrir sinni starfsemi. Hlutverk fundarins er að samhæfa starfsemi samstarfsfélaga FL, mynda sterk tengsl milli meðlima félagsins og stuðla að samvinnu samstarfsfélaga innan vébanda FL.
VI. kafli
Alþjóðasamstarf
14. gr.
Félag læknanema er fulltrúi Íslands í International Federation of Medical Students' Associations (IFMSA).
Stjórn FL og samstarfsfélögum FL er heimilt að senda senda fulltrúa á ráðstefnur á vegum IFMSA fyrir hönd FL. Félag læknanema skal kynna IFMSA og alþjóðleg verkefni þess fyrir íslenskum læknanemum og hvetja þá til virkrar þátttöku í starfsemi samtakana.
FL og Alþjóðanefnd læknanema greiða hvor um sig helming af meðlimagjaldi IFMSA.
Stjórn velur einn fulltrúa innan stjórnar sem er tengiliður við IFMSA.
15. gr.
Stjórn Félags læknanema skal vera samstarfsfélögum innan handar með að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á vegum IFMSA.
● Alþjóðanefnd læknanema getur tekið þátt í samstarfi á vettvangi Standing Committee on Professional Exchange (SCOPE). Nefndin getur tilnefnt fulltrúa sem er heimilt að bæta við sig titlinum National Exchange Officer (NEO).
● Kennslu- og fræðslumálanefnd getur tekið þátt í samstarfi á vettvangi Standing Committee on Medical Education (SCOME). Nefndin getur tilnefnt fulltrúa sem er heimilt að bæta við sig titlinum National Officer on Medical Education (NOME).
● Ástráður getur tekið þátt í samstarfi á vettvangi Standing Committee on Reproductive Health including AIDS (SCORA). Nefndin getur tilnefnt fulltrúa sem er heimilt að bæta við sig titlinum National Officer on Reproductive Health including AIDS (NORA).
● Lýðheilsufélag læknanema, Bjargráður og Hugrún geta tekið þátt í samstarfi á vettvangi Standing Committee on Public Health (SCOPH). Nefndirnar geta tilnefnt fulltrúa sem er heimilt að bæta við sig titlinum National Officer on Public Health (NOPH).
● Friðrún getur tekið þátt í samstarfi á vettvangi Standing Committee on Human Rights and Peace (SCORP). Nefndin getur tilnefnt fulltrúa sem er heimilt að bæta við sig titlinum National Officer on Human Rights and Peace (NORP).
FINO Ísland
16. gr.
Félagið heitir FINO Ísland. FINO stendur fyrir Federation of International Nordic Medical Students’ Organisations sem er norrænt samstarf læknanema.
Tilgangur félagsins er að sjá um skipulagningu og framkvæmd á norrænu þingi og ráðstefnu læknanema sem haldin er á Íslandi fimmta hvert ár.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að undirbúa og skipuleggja ráðstefnu sem haldin er fimmta hvert ár.
Félagsaðild hafa allir læknanemar við Háskóla Íslands (HÍ) sem eru skráðir í Félag læknanema HÍ.
Starfstímabil félagsins er frá skipun stjórnar FINO Ísland fimmta hvert ár, þar til ráðstefna þeirrar stjórnar er gerð upp. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins starfsárs, það ár sem ráðstefnan er haldin. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. desember fimmta hvert ár, þ.e. það ár sem ráðstefnan er haldin, boða skal til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Önnur mál
Stjórn FINO Ísland er skipuð fimmta hvert ár af stjórn Félags læknanema og Alþjóðanefnd læknanema. Læknanemar við Háskóla Íslands sem eru meðlimir Félags læknanema geta sótt um stöðu í stjórn félagsins. Stjórn félagsins skal skipuð 5-10 félagsmönnum, formanni og 4–9 meðstjórnendum. Einnig er heimilt að kjósa allt að 8 varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
Félagið hefur engin félagsgjöld.
Rekstrarafgangur af starfsemi félagsins skal geymdur og ávaxtaður í fimm ár eða fram að næsta norræna þingi FINO sem haldið verður á Íslandi.
Sé félaginu slitið renna eignir þess til Félags læknanema og Alþjóðanefndar læknanema og skal varið í alþjóðasamstarf læknanema.
VII. kafli
Alþjóðanefnd
17. gr.
Alþjóðanefnd skal skipuð ellefu félögum í Félagi læknanema.
Alþjóðanefnd er sjálfstæð nefnd, með sjálfstæðan fjárhag, eigin kennitölu og sjálfstæð lög. Nefndin skilar skýrslu um starfsemi félagsins til aðalfundar Félags læknanema.
Hlutverk nefndarinnar er að fara með stúdentaskipti læknanema við Háskóla Íslands og koma að alþjóðlegum samskiptum læknanema gegnum IFMSA. Um frekari störf Alþjóðanefndar vísast til laga Alþjóðanefndar.
VIII. kafli
Ástráður
18. gr.
Ástráður, kynfræðslufélag læknanema, skal skipað fjórtán einstaklingum.
Ástráður kýs sér formann í upphafi starfsárs sem situr í formannsráði sbr. gr. 13.
Ástráður er sjálfstæð nefnd, með sjálfsstæðan fjárhag, eigin kennitölu og sjálfstæð lög. Nefndin skilar skýrslu um starfsemi félagsins til aðalfundar Félags læknanema.
Hlutverk Ástráðs er að fara fyrir fræðslustarfi læknanema við Háskóla Íslands á sviði kynheilbrigðis. Um frekari störf Ástráðs vísast til laga Ástráðs.
IX. kafli
Kennslu- og fræðslumálanefnd
19. gr.
Kennslu- og fræðslumálanefnd skal skipuð 6 félagsmönnum, einum af hverju námsári.
Starfsár Kennslu- og fræðslumálanefndar er milli aðalfunda Félags læknanema.
Formaður nefndarinnar kemur af 5. ári.
Hlutverk nefndarinnar er að:
1. Mæta á fundi kennsluráðs, deildarráðs, deildar og skorar Læknadeildar. sbr. gr. 21
2. Halda fræðslufundi um málefni tengd læknisfræði
3. Sjá um bókakost og fræðabúr Félags læknanema,
4. Taka þátt í skipulagningu háskólakynningar
5. Sjá um hópslysaæfingar.
6. Sjá um kynningar á námskeiðum í læknadeild.
X. kafli
Bjargráður
20. gr.
Bjargráður er forvarnarfélag sem sinnir fræðslu um skyndihjálp á meðal grunn- og framhaldsskólanema.
Bjargráður kýs sér formann í upphafi starfsárs sem situr í formannsráði sbr. gr. 13.
Bjargráður er sjálfstæð nefnd, með sjálfsstæðan fjárhag, eigin kennitölu og sjálfstæð lög. Nefndin skilar skýrslu um starfsemi félagsins til aðalfundar Félags læknanema.
XI. kafli
Hugrún
21. gr.
Hugrún er forvarnarfélag sem sinnir fræðslu um geðheilbrigði á meðal framhaldsskólanema.
Hugrún kýs sér í upphafi starfsárs fulltrúa úr læknisfræði sem eiga sæti í samstillingarfundum Félags læknanema sbr. gr. 13.
Hugrún er sjálfstætt félag, með sjálfsstæðan fjárhag, eigin kennitölu og sjálfstæð lög.
XII. kafli
Fulltrúaráð
22. gr.
Fulltrúaráð skal skipað 8-12 félagsmönnum. Einum til tveimur af þriðja, fjórða, fimmta og sjötta námsári. Tveimur af fyrsta námsári og tveimur af öðru námsári
Formaður nefndarinnar kemur af 3. ári.
Hlutverk þess er að sjá um:
1. Vísindaleiðangra félagsins
2. Skemmtanir
3. Árshátíð
4. Stuðla að íþróttaiðkun félagsmanna
5. Þátttöku í íþróttamótum háskóladeildanna
Fulltrúaráð hefur umsjá með dagskrá Félags læknanema og skal gera hana skýra öllum félagsmönnum.
Fundur skal haldinn í upphafi hvorrar annar milli fulltrúaráðs og stjórnar til að fara yfir og móta fjárhagsáætlun komandi annar. Fundinn skulu sitja a.m.k. formaður og gjaldkeri stjórnar og formaður og 2. árs fulltrúar fulltrúaráðs.
XIII. kafli
Læknaneminn
23. gr.
FL gefur út Læknanemann, blað læknanema við Háskóla Íslands. Læknaneminn skal að jafnaði koma út einu sinni á starfsári, vera eigið félag og hafa sjálfstæðan fjárhag.
Ritnefnd Læknanemans skal skipuð 4 félagsmönnum sem koma af fimmta ári og allt að 4 öðrum félagsmönnum. Stjórn FL skal auglýsa eftir ritstjórn.
Ritstjóri sem jafnframt er ábyrgðarmaður blaðsins skal koma af fimmta námsári.
Ritnefnd blaðsins ákveður áskriftargjöld annarra en félagsmanna. Ritnefndin skilar skýrslu og endurskoðuðum reikningum til aðalfundar Félags læknanema.
Hlutverk Læknanemans er að fjalla um læknisfræðileg atriði og annað það sem við kemur námi og starfi í læknisfræði.
XIV. kafli
Lýðheilsufélag læknanema
24. gr.
Lýðheilsufélag læknanema skal skipað níu til tólf félagsmönnum: tveimur af fyrsta, öðru og þriðja námsári; einum til tveimur af fjórða, fimmta og sjötta námsári. Formaður nefndarinnar er valinn á fyrsta fundi nefndarinnar.
Hlutverk nefndarinnar:
1. Stuðla að bættri lýðheilsu og heilsuvitund Íslendinga með áherslu á háskólasamfélagið. Áherslumálefni skal setja í upphafi hvers starfsárs af lýðheilsufélaginu. Áherslumálefni geta náð yfir 1 eða fleiri starfsár.
2. Halda Bangsaspítalann
3. Halda Blóðgjafamánuð
4. Halda fræðslufundi tengda lýðheilsumálefnum.
5. Leitast skal við að hafa sem mest samstarf við önnur nemendafélög Heilbrigðisvísindasviðs.
6. Leitast skal við að sinna alþjóðaheilbrigðismálum.
XV. kafli
Öldungaráð FL
25. gr.
Meðlimir og starfstímabil:
● Öldungaráð FL skal skipað 2-4 fulltrúum sem hafa lokið 5. námsári við læknadeild HÍ.
● Meðlimir þurfa að hafa lokið 5. námsári og mega ekki sitja í annarri nefnd FL.
● Starfstímabil Öldungaráðs (ÖR) er á milli aðalfunda FL.
● Fulltrúar eru kosnir til 2ja ára í senn.
Skipun Öldungaráðsins:
● Skipað er í ÖR á aðalfundi FL ár hvert.
● Umsóknir berist fráfarandi stjórn 2 vikum fyrir aðalfund sem metur gildi þeirra.
● Leitast skal eftir að embættismenn hafi góða reynslu af starfi FL, undirnefndum og samstarfsfélögum þess svo þeir geti þannig sinnt ráðgjafahlutverki sínu.
● Aðalfundur kýs milli umsækjenda. Hver fundarmaður hefur tvö atkvæði og hljóta þeir frambjóðendur kjör sem fá flest atkvæði.
Hlutverk:
● Að vera innan handar til ráðlegginga viðeigandi nefndarstarfa og sinna umsjónar/yfirsjónarhlutverki stjórnar.
● Fá uppfærslu frá stjórn FL um starsemi hennar á fundi tvisvar sinnum á starfsári hennar, einu sinni á hvorri önn.
● Efla tengsl við eldri nemendur þegar á við, fulltrúar í ÖR eiga auðveldara með að setja sig í samband við gamla formenn annarra nefnda, ritstjórn læknanemans o.þ.h.
● Vera innan handar til ráðlegginga Vice President of External affairs (VPE) og Head of Delegation (HoD) á lagabreytingatillögum (Bylaw Change Proposal, BCP), stefnumálum (policy) o.fl. sem er til umfjöllunar á lagabreytingarfundum (plenary) aðalfunda (General Assembly, GA) IFMSA. VPE og HoD senda ÖR beiðnir um álit á einstaka málum eða samantektir.
● Getur hafið “rannsókn” (investigation) á starfi nefnda eða nefndarmeðlima sé grunur á að um brot á lögum félagsins eða landsins sé að ræða. Skýrslu skilað til stjórnar, sem ákveður hvernig skal vinna málið frekar.
XVI. kafli
Friðrún
26. gr.
Hlutverk Friðrúnar, mannréttinda og friðarfélags læknanema, er að efla áhuga og þekkingu á mannréttindum, friði og málefnum því tengdu. Friðrún skal einnig falast eftir því að auka hæfni læknanema til að styðja við mannréttindi jaðarsettra hópa í námi sínu og starfi. Um frekari störf félagsins vísast til laga Friðrúnar.
Friðrún er sjálfstætt félag með sjálfstæðan fjárhag, eigin kennitölu og sjálfstæð lög.
XVII. kafli
Heimasíða
27. gr.
Félag læknanema birtir upplýsingar um starfsemi félagsins á heimasíðu sinni. Ritstjóri heimasíðunnar sér um heimasíðuna og skal hann skipaður af stjórn.
XVIII. kafli
Samskipti við Háskóla Íslands
28. gr.
Félag Læknanema á fulltrúa í deildarráði, deildarfundum, skorafundum og kennsluráði Læknadeildar skv. gildandi lögum og reglugerðum Háskóla Íslands. Fulltrúar á þessum fundum skulu hafa hagsmuni læknanema við Háskóla Íslands að leiðarljósi en ráða atkvæðum sinum ef til kosninga kemur.
Fulltrúar á deildarfundi Læknadeildar skulu vera meðlimir stjórnar FL og KF. Stjórn FL skipar aðra fulltrúa og varamenn þeirra. Nemendum er stunda rannsóknartengt framhaldsnám við Læknadeild er heimilt að tilnefna einn fulltrúa í samráði við stjórn FL.
Fulltrúi út stjórn FL og úr Kennslu og fræðslumálanefnd skulu sitja deildarráðsfundi.
Kennslu- og fræðslumálanefnd skipar tvo fulltrúa í kennsluráði Læknadeildar.
XIX. kafli
Húsnæði
29. gr.
Fundar- og félagsherbergi sem Félag læknanema hefur aðgang að skulu vera öllum félagsmönnum aðgengileg. Hlutverk þeirra skal vera að þjóna sem:
Fundaraðstaða fyrir hópa læknanema, stjórn FL og undir- og samstarfsélaga FL.
Samkomustaður læknanema.
XX. Kafli
Jafnréttisstefna Félags læknanema
Jafnréttisstefna Félags læknanema (FL) byggir á landslögum um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna nr. 150/2020 sem og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018.
1. gr.
Gildissvið
Jafnréttisstefna þessi nær til alls félagsfólks Félags læknanema auk allra undir- og samstarfsfélaga. Í því felst öll sú starfsemi sem félögin sinna; yfirlýsingar, skemmtanir, fræðsluviðburðir, samskipti og annað.
2. gr.
Markmið
Markmið jafnréttisstefnu þessarar er að tryggja og standa vörð um jafna meðferð og koma í veg fyrir mismunun, áreitni og ofbeldi meðal stjórnarmeðlima og félagsfólks FL á grundvelli kyns, kyngervis, kynvitundar, kyntjáningar, kynhneigðar, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, efnahags, fötlunar, veikinda, aldurs eða félagslegrar stöðu að öðru leyti. Hvers kyns mismunun, áreitni og ofbeldi skuli ekki vera liðið með neinum hætti. Allt félagsfólk skal eiga jafna möguleika á að sækja og vera hluti af starfsemi FL. Jafnramt skal allt félagsfólk eiga rétt á að sækja viðburði og sinna störfum fyrir FL óáreitt.
Markmiði þessu skal náð með því m.a. að:
- gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að samþættingu þeirra í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum félagsins,
- vinna að jöfnum áhrifum ofangreindra félagshópa í félaginu,
- efla fræðslu um jafnréttismál í samvinnu við Læknadeild Háskóla Íslands,
- breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kynjanna og annarra ofangreindra félagshópa,
- auka aðgengi að embættistörfum innan FL,
- tryggja að raddir alls félagsfólks eigi sér hljómgrunn óháð ofangreindum félagshópum,
- vinna gegn fjölþættri mismunun.
3. gr.
Ákvæði
- Bann við hvers kyns mismunun á grundvelli ofangreindra félagshópa (2. gr.)
- Bann við hvers kyns áreitni og ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, á grundvelli ofangreindra félagshópa (2. gr.)
- Birt efni á vegum FL eða undir- og samstarfsfélaga skal ekki fela í sér brot á jafnréttisstefnu þessari.
4. gr.
Viðurlög
Gerist félagsfólk víst um brot gegn jafnréttisstefnu þessari varðar það brottvísun úr félaginu án endurgjalds félagsgjalda, banni á áframhaldandi starfi á vegum félagsins og banni á að sækja skemmtanir, fræðsluviðburði og aðra starfsemi á vegum FL sem og undir- og samstarfsfélaga um óskilgreindan tíma, háð hverju atviki fyrir sig.
5. gr.
Gildistaka
Jafnréttisstefna þessi öðlast þegar gildi er ný lög eru samþykkt á aðalfundi FL 2022.
Ýmis ákvæði
30. gr.
Vantraust á stjórn Félags læknanema eða einstaka embættismenn félagsins skal borið fram skriflega og skal að minnsta kosti 1/5 hluti félagsmanna undirrita það. Stjórninni er skylt að halda félagsfund um vantraust innan hálfs mánaðar og skal boðið til hans á sama hátt og segir til um aðalfund. Til að samþykkja tillögu um vantraust þarf 2/3 greiddra atkvæða fundarmanna. Skal þá að nýju kosið í laus embætti á sama hátt og á aðalfundi.
Ef ekki koma fram framboð í embætti hefur félagsfundur leyfi til þess boða félagsmann í þau embætti sem upp á vantar.
Sömu reglur skulu gilda ef stjórn Félags læknanema segir af sér.
Nú fæst ekki nemandi af því ári sem tiltekið er í lögum og hefur þá aðalfundur heimild til að kjósa nemanda af öðru ári til að sinna embættisverkum.
31. gr.
Reikningsár félagsins og starfsár er milli aðalfunda félagsins.
32. gr.
Lögum og reglugerðum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.
Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til laga- eða reglugerðabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.
Tillögum til laga- og reglugerðabreytinga skal skila til stjórnar a.m.k. viku fyrir aðalfund og skulu með sömu tímamörkum auglýstar félagsmönnum í Facebook hóp læknanema við Háskóla Íslands.
Tillögum til laga- og reglugerðabreytinga skal skila til stjórnar a.m.k. viku fyrir aðalfund og skulu með sömu tímamörkum sendar til félagsmanna með tölvupósti og auglýstar á heimasíðu félagsins til kynningar af stjórn.
Framboð til embætta á vegum félagsins skal senda inn til ritara félagsins minnst viku fyrir aðalfund
Er aðalfundu lögmætur ef rétt er til hans boðað. Aðalfundur er löglegur án tillits til fundarsóknar.
Fái tillaga til lagabreytingar samþykki meirihluta fundarmanna öðlast hún gildi.
33. gr
Félag læknanema á vísu sem öllum meðlimum þess ber að kunna. Hún er svona:
Læknanemar lýðs vors eina vörn
ljósi bregða í eymdarinnar húmi
Þeir geta landsins gáfustu börn,
Og gæta þess að enginn svelti í rúmi.
34. gr.
Nú kemur fram tillaga um það að Félagi læknanema skuli slitið. Tillögu um slit á Félagi læknanema skal að minnsta kosti undirrituð af 1/5 hluti félagsmanna. Stjórninni er skylt að halda félagsfund um slit á félaginu innan hálfs mánaðar og skal boðið til hans á sama hátt og segir til um aðalfund. Til að samþykkja tillögu um slit á félaginu þarf 2/3 greiddra atkvæða fundarmanna. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins.
Lög Félags læknanema samþykkt á aðalfundi félagsins 20. Apríl 2022.