Alþjóðanefnd
-
Alþjóðanefnd læknanema sér um skipulagningu skiptináms í gegnum
SCOPE innan alþjóðlegu læknanemasamtakanna IFMSA (International
Federation of Medical Students Associations). Í því felst að taka
á móti erlendum læknanemum og að senda læknanema við HÍ í
skiptinám til áfangastaða að þeirra ósk. Skiptinám klínískra
læknanema er metið til eininga á valtímabili 6. árs. Hægt er að
taka þátt í móttöku erlendra læknanema með því að skrá sig sem
tengilið.
Ástblær
-
Ástblær er hinsegin félag læknanema. Sýn félagsins er að öll þau
sem stunda nám í læknisfræði við Háskóla Íslands finni fyrir
öryggi og líði vel innan deildarinnar, burtséð frá kynhneigð,
kynvitund eða kyntjáningu. Auk þess er markmið Ástblæs stuðla að
þekkingu læknanema á málefnum hinsegin fólks.
Ástráður
-
Ástráður er kynfræðslufélag sem er rekið af íslenskum læknanemum
við Háskóla Íslands. Markmið Ástráðs er að fræða ungmenni landsins
um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Ár hvert heimsækir nefndin
alla framhaldsskóla landsins og heldur fyrirlestur fyrir 1. árs
nemendur.
Bjargráður
-
Bjargráður er félag skyndihjálparkennslu FL. Meginhlutverk þeirra
er að standa að skyndihjálparkennslu fyrir framhaldsskólanema sem
og aðra sem hafa áhuga. Þau skipuleggja einnig Bjargráðsviku fyrir
fyrsta árs læknanema, koma að skipulagningu stórslysaæfingar með
Kennslufélaginu, halda Bjargráðsvísó og lokahóf fyrir fyrsta árs
nemana.
Félag Læknanema
-
Félag Læknanema (FL) var stofnað 6. mars árið 1933 og er yfirlýst
stefna þess að það telji sér ekkert óviðkomandi er varðar hag og
fræðslu læknanema. Félagið er hagsmunafélag læknanema og hefur frá
upphafi verið ötult baráttufélag læknanema um kjaramál. Stjórn FL
fer fyrir hagsmunastarfi læknanema og hefur lengi átt farsælt
samstarf við deildar- og kennslustjóra læknadeildar. Félagsstarf
læknanema hefur ætíð verið öflugt og á félagið undir- og
samstarfsfélög sem halda meðal annars utan um alþjóðastarf
læknanema, kennslumál, kynfræðslu, skyndihjálp, skemmtanahald og
lýðheilsu.
Fulltrúaráð
-
Fulltrúaráð skipuleggur viðburði fyrir læknanema á öllum árum og
skapa þar með frábæran vettvang til að kynnast tilvonandi
kollegum. Meðal viðburða má nefna skíðaferð, vísindaferðir í hinar
ýmsu stofnanir, fótboltamót læknanema, læknaleikar og hina
sívinsælu árshátíð læknanema.
Kennslu- og fræðslumálanefnd
-
Kennslu- og fræðslumálanefnd (KF) starfar sem tengiliður nemenda
við kennslu læknadeildar og sitja fulltrúar nefndarinnar á
kennsluráðsfundum með stjórnendum kennslumála. KF heldur utan um
og skipuleggur nemendakennslur og ýmsar kynningar um sérnám.
Lýðheilsufélag læknanema
-
Lýðheilsufélag læknanema er félag sem sér um hina ýmsu viðburði
tengda lýðheilsu. Aðalmarkmið Lýðheilsufélagsins er að auka
meðvitund um mikilvægi lýðheilsu meðal læknanema, sem og annarra
hópa samfélagsins. Stærsti viðburður Lýðheilsufélagsins er hinn
sívinsæli Bangsaspítali, sem snýr að því að minnka hræðslu barna
við heilbrigðiskerfið en einnig að gefa 1. árs læknanemum dýrmæta
reynslu.